SNTP stendur fyrir Simple Network Time Protocol (RFC 2030) og er í raun einföld útgáfa af Network Time Protocol (NTP). Þessi staðall er mjög útbreiddur og gerir tölvum og öðrum búnaði kleift að fá réttan tíma, ýmist til að birta beint eða til að fínstilla innbyggðu klukkuna. Sjá nánar samanburð á NTP og SNTP á vef TimeTools.
SNTP biðlarar (clients) senda fyrirspurn til NTP-tímaþjóna og fá til baka nákvæman tíma. Að vísu þarf að taka tillit til seinkunar í samskiptum yfir netið, sem getur skipt nokkrum hundraðshlutum úr sekúndu. Nákvæmnin sem þessi forrit ná yfir Internetið, er því oft um 10-50 ms. frá réttum tíma. Sé notast við áreiðanlegan tímaþjón á staðarneti, getur nákvæmnin orðið 2-5 ms. frá kórréttum tíma. Leiðréttingin er yfirleitt framkvæmd í einu stökki, en ekki með því að flýta/seinka klukkunni í nokkurn tíma.
Helsti kostur þess að nota SNTP er einfaldleikinn og minni kröfur um innra minni og vélarafl. SNTP hentar því ágætlega fyrir smátölvur, netbúnað og vinnustöðvar. Reyndar notar Windows SNTP-biðlara til að tímastilla stýrikerfið með W32time-þjónustunni, ýmist á 9 klst. fresti eða jafnvel aðeins einu sinni í viku.
Eldveggir
Ef tölvan þín notar eldvegg eða er á bak við einn slíkan (gildir um flestar ADSL-tengingar og netkerfi í fyrirtækjum), gæti þurft að leyfa UDP samskipti á porti 123 til að SNTP og NTP virki.
Lausnir fyrir Windows
Nýjustu útgáfur Windows stýrikerfisins bjóða upp á samstillingu við SNTP-þjóna. Að vísu er það ósköp einföld aðferð sem gefur litlar upplýsingar um frávik og leiðréttingar. Þar af leiðandi býður fjöldi hugbúnaðarframleiðenda upp á lausnir fyrir Windows, sem virka einnig á eldri útgáfum af stýrikerfinu. Hér er listi yfir nokkur slík forrit sem við höfum prófað og getum mælt með:
- Samtíma er einfalt og ókeypis forrit frá okkur sem notar NTP-tímaþjón til að fínstilla klukkuna í tölvunni. Það vinnur að jafnaði í forgrunni og birtir þá tímann og mismun miðað við tímaþjóninn. Notendaviðmótið er á íslensku og hjálpartextinn líka.
- Chronograph er flott forrit sem kostar um 19 USD. Það býður upp á nokkrar stillingar og er með þægilegt notendaviðmót. Helsti galli þess er að ekki er hægt að tilgreina tímaþjóna eftir smekk, heldur aðeins velja úr 10 algengum tímaþjónum.
- Domain Time II Client er mjög gott forrit sem kostar tæpa 40 USD. Það býður líka upp á samstillingu skv. öðrum tímastillingarstöðlum. Samstilling er framkvæmd með því að flýta/eða seinka klukkunni um nokkurn tíma, sem er betra en að gera það í einu stökki, sérstaklega fyrir netþjóna eða vinnustöðvar sem vinna mjög tímaháð verkefni. Þetta forrit ásamt Domain Time II Server er eitt það allra besta í þessum flokki. Notendaviðmótið er nokkuð flókið fyrir byrjendur, en kostir forritsins vega upp slíka galla.
Lausnir fyrir Linux, Mac og iSeries
Linux-tölvur má samstilla með ntpd eða chrony sem jafna tímamun með því að auka eða minnka tiftíðnina í örsmáum áföngum, svo það trufli ekki vinnslu tímaháðra forrita. Forritin nota yfirleitt 3 eða fleiri NTP-þjóna til að tryggja nákvæmni og rekstraröryggi. chrony er smátt og smátt að taka yfir tímastillingar í Linux-umhverfi. Sjá nánari umfjöllun um NTP og áþekkar lausnir.
Mac-tölvur bjóða stillingar í stýrikerfinu, er hægt að tilgreina tímaþjóna í valmyndinni "Set date & time automatically" í "Date & Time preference pane" og er klukkan fínstillt eftir þeim. Þar sem Mac OS X er byggt á Unix, er ntpd skipunin notuð í bakgrunni.
IBM iSeries (einnig kölluð IBM i eða AS/400) getur samræmt sína klukku við NTP-þjóna, með því að tilgreina forsendur með skipuninni CHGNTPA eða gegnum iSeries Navigator. Sjá nánari leiðbeiningar á vef IBM.
Klukkan í iSeries tölvu er mun stöðugri en í PC-tölvu og hentar hún því sem "master" innan netkerfis. Hún notar þá SNTP biðlara til að leiðrétta eigin klukku, og miðlar réttum tíma til annarra tölva á netkerfinu með NTP þjónustu.
© 2007-2019, Hugmót ehf - Allur réttur áskilinn